top of page
Writer's pictureAuðbjörg Reynidóttir

Ég játa!

Formaður læknafélagsins hafði stór ummæli um sjúklinga í fjölmiðlum 19. janúar 2023 og lét í það skína að sjúklingar hóti að fara í fjölmiðla ef læknar geri ekki nákvæmlega eins þeir vilji.

Ég ætla að játa hér og nú að það var ég sem gerði þetta. Ég reyndar hótaði ekki fjölmiðlum heldur hótaði að kvarta til landlæknis enda geta fjölmiðlar lítið gert ef heilbrigðisstarfsmenn standa sig illa. Ég get jafnframt fullyrt að þegar sjúklingar beita svona hótun er það af ástæðu og í mínu tilfelli var það svo. Læknirinn hafði dregið mig á asnaeyrunum í næstum heilt ár og þetta var eina ráð mitt til að ná athygli hans. Það liðu innan við 30 mínútur þar til ég hafði fengið viðeigandi viðbrögð. Hann vissi upp á sig skömmina. Ég er enn að hugsa hverju ég hefði getað hótað þegar ég fékk ekki áheyrn fyrir 22 árum síðan þegar sonur minn lést eftir vanrækslu og mistök starfsmanna bráðamóttökunnar. Allavega hefði ég átt að brjálast fyrr.


Í fjölmiðlum 16. febrúar sl. sagði Helga Maren Pálsdóttir frá hættuástandi sem skapaðist þegar 4 ára dóttir hennar fékk ekki nægilega góða heilsugæsluþjónustu. Hvert annað en í fjölmiðla gat hún farið.

Hafði enginn leiðbeint henni um hvert ætti að kvarta og hjálpað henni að gera það formlega? Þetta er það sem gerist í kerfi sem sækist ekki eftir að hlusta á viðhorf og reynslu sjúklinga. Það er ekki ábyrgð sjúklinga að tilkynna atvik heldur starfsmanna, samkvæmt lögum. Móðirin hótaði engu en nýtti tjáningarfrelsi sitt til að vara aðra við þeirri hættu sem börnin okkar eru í. Það fannst mér aðdáunarvert hugrekki. Ég vona að Heilsugæslan taki það alvarlega og taki upp sívirkt kvörtunarkerfi en jafnframt þakki Helgu Maren fyrir ábendinguna og sendi fjölskyldunni afsökunarbeiðni eins og vera ber. Það væri áþreifanlegt merki um að starfsmenn vilji læra.


Sjúklingar gera kröfur og eiga rétt á vönduðu viðmóti heilbrigðisstarfsmanna og traustri þjónustu. Þeir eru veikari aðilinn í þjónustusambandinu og eiga ekki að þurfa að berjast með kjafti og klóm til að njóta bestu þjónustu sem völ er á samkvæmt lögum. Læknar eru manneskjur og misjafnlega upplagðir eins og við hin.


Á allra vörum er hve illa heilbrigðiskerfið er í stakk búið til að sinna bráðaþjónustu að ekki sé talað um þjónustu við eldri borgara og langveika. Þarna er einfaldlega tækifæri til að gera betur. Ekki eru það bara starfsmenn sem upplifa streitu og álag heldur einnig sjúklingar sem eiga sífellt erfiðara með að fá viðunandi áheyrn og viðbrögð þegar lífið liggur við. Síðan bætast áhyggjufullir aðstandendur við allt saman. Um leið og sjúklingar/aðstandendur sýna vísbendingar um óánægju eða vantraust, á að taka það alvarlega því þeir vita sínu viti, þeir eru sérfræðingar í sínu lífi. Það á ekki að reyna á þolrif sjúklinga og þreyta þá til að yfirgefa færibandið og hvað þá að kvarta undan þeim í fjölmiðlum. Formaður læknafélagsins ætti að innræta sínum félögum meiri þjónustulund og virka hlustun að ég tali nú ekki um að sækjast eftir samtali við þá sem nota þjónustuna og vilja gera hana enn betri. Það er ekki einkamál heilbrigðisstarfsmanna.


Starfsmenn eru sífellt settir í aðstæður þar sem sjúklingurinn er ekki í forgrunni eins og falleg stefnu- og gæðaskjöl segja til um. Þeir fá jafnvel skammir ef þeir eru of lengi að afgreiða málin með útskrift. Ekkert svigrúm er til þess að vera mannleg í samskiptum við sjúklinga sína því þeir starfa á hátæknisjúkrahúsi. Við erum ekki flæðisvandi heldur manneskjur.

Sjúklingar eiga að hafa skoðun á heilsu sinni og þeirri meðferð sem þeir fá en fæstir hafa hugmynd um hvernig er besta að standa að kvörtun. Þetta er einmitt það sem ekki nógu margir sjúklingar gera eða telja sig ekki eiga að hafa skoðun á sinni eigin meðferð. Þeir jafnvel sjá lækninn sem guð og þora ekki að tjá sig og alls ekki að tjá sig um efasemdir sínar eða vekja tortryggni. Það veit sjúklingurinn að getur skaðað hann. Hvert á hann að leita annað ef hann fær ekki það sem þarf? Það er bara einn spítali á Íslandi og það sjá allir sem vilja, verndarhjúpinn sem þar hvílir yfir.

Fjölmiðlar fara silkihönskum um alla umræðu enda bregðast læknar og hjúkrunarfræðingar oft við með stórum og miklum ályktunum til varnar sér og sínum. Hópast saman um stórar yfirlýsingar (til dæmis læknaráð, hjúkrunarráð, fagráð og fagfélög) því bakland þeirra er öruggt og valdamikið. Í þessu ástandi tipla sjúklingar/aðstandendur á tánum og segja sem minnst enda einkennist ástandið af óreiðu eins og á heimili alkóhólista, að halda öllum góðum svo enginn sjái raunverulegt ástand heimilisins.


Það er gott að standa utan kerfisins og geta tekið upp hanskann fyrir sjúklinga og aðstandendur án þess að eiga það á hættu að vera rekinn. Frelsið er dýrmætt og ætti einnig að vera til staðar í samskiptum sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna til þess að framþróun verði í þjónustunni. Það er alveg hægt að vera kurteis á sama tíma. Það er óþarfi að bíða eftir að reiðin verði það mikil að hún kalli á hótun. Sorglegt er að sjá að dýrmætri reynslu sjúklinga sé kastað af færibandinu sem annars ætti að nýtast til umbóta í heilbrigðiskerfinu. Á meðan svo er verða raunverulegar framfarir litlar.






319 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page