Eftirfarandi er tekið úr lokakafla bókarinnar:
Ég veit núna að ég gerði allt sem ég gat og meira til. Bæði til að vernda líf Jóels og lifa lífinu þrátt fyrir óbærilegan missi. Ég þurfti að fara í gegnum þetta helvíti til að fá svörin sem vantaði og þá er tilganginum náð. Nú get ég flett ég yfir í næsta kafla lífsins. Ég er laus við ásakanir orðanna: „… ef ég bara hefði.“ Ég hef náð sáttum.
Sátt við að vera ósátt á meðan uppgjör er ekki mögulegt. Það hefur verið þess virði að fara í gegnum þetta eins og ég hef gert, sannfærð um að nú hjálpar það öðrum. Þetta hefur ekki verð auðveld vegferð. Nú geta þeir sem vilja gert sínar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Ekki bara á Barnaspítala Hringsins heldur í öllu heilbrigðiskerfinu þar sem sjúklingar þurfa að varað sig á hættunni. Nú er kominn nýr dagur og tilefni til að standa með þeim sem eru nú berjast af veikum mætti eftir sambærileg mistök. Eins og margir í þessari stöðu legg ég mig fram um að láta gott af mér leiða. Ég þarf ekki að réttlæta ósk mína um sátt með ítarlegri fræðilegum gögnum en ég hef nú þegar tekið saman. Ef til vill kemur þetta fræðilega yfirlit að gangi þegar efla á öryggismenninguna.
Það sem drífur mig áfram í þessum skrifum er þörfin á að gefa lífi og dauða sonar míns gildi. Þjáningin og sársaukinn sem fylgdi dauða hans var slík að hún verður að leiða eitthvað gott af sér. Friðurinn ríkir í lífi mínu í dag.
„Þar sem er friður, þar er Guð“ sagði Móðir Teresa.
Ég get aðeins vonað að starfsmenn og stjórnendur finni sína sátt en sáttin þarf að vera hluti af viðbrögðum við alvarlegum atvikum. Ef hún næst ekki er hætta á að reiðin valdi enn meiri heilsubresti - andsætt tilgangi heilbrigðisþjónustunnar. Friður er tákn um réttlæti.
Að vera móðir
Það er stóra sáttin mín að vera svona móðir eins og ég vil vera. Ég hef barist fyrir börnin mín með öllu sem ég á til. Þannig vil ég einnig mæta öllum manneskjum. Hver og einn lifir sínu lífi og ég styð það því lífið hefur gildi í sjálfu sér. Allir eiga jafnan rétt, allir eiga skilið ást og umhyggju án skilyrða og takmarkalaust. Líka þeir sem gera banvæn mistök. Virði okkar er ekki fólgið í verkum okkar, það minnkar ekki né stækkar eftir því sem hvað við gerum. þess vegna eigum við að vinna saman að því að gera heilbrigðisþjónustuna öruggari.
Bókhaldið
Það að Jóel fékk góða þjónustu oftast nær og margar ákvarðanir voru teknar sem reyndust vel á hans stuttu ævi - er það ekki réttlæting á þeim hörmungum sem yfir okkur dundu á bráðamóttökunni 22. febrúar 2001. Sá dagur strokar heldur ekki út allt það góða sem við fengum að njóta í heilbrigðiskerfinu. Öll atvik eiga að skila lærdómi og vissulega getur góð þjónusta gert það líka.
Ekki of seint að hlusta
Það hefði mátt koma í veg fyrir andlát Jóels með því einu að hlusta. Það er ekki of seint að hlusta og koma í veg fyrir að fleiri láti lífið af sömu ástæðu.
Aldrei verður hægt að bæta þann skaða sem spítalinn olli mér og fjölskyldu minni en það er hægt að koma í veg fyrir að aðrir hljóti sambærileg örlög. Ég get ekki tekið undir þögnina og látið sem ekkert sé. Þetta er barátta upp á líf og dauða. Tilgangurinn er ekki að skaða meira heldur lækna og veita von um betri framtíð.
Auðvitað er það sárt að horfast í augu við þetta en ávinningurinn er ómetanlegur ef menn vilja læra og verða betri. Það er eina rétta leiðin. Þetta mun koma fyrir aftur og þá er um að gera að vera búin að læra af fyrri sambærilegum atvikum. Ert þú tilbúin? Við verðum að vera stærri en svona atburðir þótt það sér erfitt. Tökum höndum saman.
Salom - Salam
Gyðingar og Arabar nota sömu kveðju: Friður. Salom á hebresku, salam á arabísku. Þetta er ósk um frið, samræmi, heill heilsu, velferð, líðan eins og best gerist. Þetta er ósk mín til handa þeim sem verða fyrir alvarlegum atvikum og þeim sem valda alvarlegum atvikum eða verða vitni þeim.
Það er ljóst að margt er hægt að gera betur til að fyrirbyggja alvarleg atvik og breyta þarf viðbrögðum við alvarlegum atvikum svo lækning og traust byggist upp að nýju. Í sameiningu getum við fært framtíðinni nýja þekkingu með því að læra af mistökum, það er það mikilvægasta. Ég ætla að halda áfram að skrifa og miðla þekkingu á þessu sviði á vefsíðunni audbjorg.com
Takk fyrir að hlusta. Það er góð tilfinning að vita að einhver sér mann heyrir í manni. Það græðir sárin betur en allt annað.
Comments