Sögur af alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustunni hafa verið áberandi að undanförnu og háværar raddir magnast til stjórnvalda um að grípa inn í alvarlegt ástand á bráðamóttöku Landspítalans. Í flestra augum stafar ástandið af fjárskorti. En er fjármagn allt sem þarf? Það er ekkert nýtt að alvarleg atvik eigi sér stað í heilbrigðisþjónustunni og þau verða ávallt til staðar í einhverjum mæli. Ég er ein þeirra sem hef ítrekað gert tilraunir til sátta eftir að sonur minn Jóel lést aðeins eins árs gamall árið 2001. Því miður get ég ekki séð að vinnubrögðin hafi breyst á þessum 19 árum. Það er óþarfi að telja upp sögurnar sem til eru af
sambærilegum atvikum og hentu hann, en bendi á vefsíðu mína audbjorg.com þar sem ég held mörgum þeirra til haga svo allir geti lært af. Á vefsíðunni verður hægt að nálgast námskeið og leiðbeiningar um hvernig best sé að haga málum áður en og eftir að slysin verða. Það má einnig læra af sögum sem enda vel. Þann 22. febrúar næstkomandi verða liðin nákvæmlega 19 ár frá því að mistökin áttu sér stað sem kostuðu Jóel lífið og ollu fjölskyldunni óbærilegum þjáningum. Það er fátt sem stendur heilt eftir í lífi manns eftir svona atburð. Um þetta skrifa ég ítarlega í væntanlegri rafbók, Stærri en banvæn mistök.
Frá því þetta átti sér stað hef ég safnað að mér fróðleik og reynslu annarra í þessum málum, lesið mikið, sótt ráðstefnur og átt góð samtöl við fólk um allan heim. Til dæmis las ég bók eftir Øyvind Kvalnes, heimspeking og dósent í Noregi. Í bókinni vitnar hann í viðtal við lækni í Lillehammer sem gerði mistök sem leiddu til þess að nýfædd stúlka lést. Þetta mál er umtalað í Noregi og gott dæmi um viðbrögð í þessum aðstæðum. Øyvind spurði Stian Westad lækni af hverju hann brást strax við með viðurkenningu á mistökum sínum. Stian svaraði á þá leið að það fylgi því góð heilsa að gera rétt og hann vildi girða fyrir tilhneigingu foreldranna til sjálfsásökunar. Hann vildi ekki að þau færu að kenna sér um dauða dóttur sinnar eða velta fyrir sér hvað þau hefðu átt að gera betur. Síðan bætir Stian við að með því að viðurkenna hlutina ekki strax verður erfiðara að gera það síðar, því þá þarf bæði að útskýra mistökin og seinkomna viðurkenningu.
Jesús sagði: „Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.“ Ég vildi óska að sáttatillögu minni væri svarað svo ég gæti sátt haldið mig á veginum með öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.
Fortíðin geymir mörg og bitur tár en við þurfum fyrst og fremst hugrekkið til að breyta. Fjármagn er ekki endilega lausnin. Öryggismenningin verður ekki til inni í lokuðum fundarherbergjum eða í skjölum stofnana. Hún verður til á göngunni, sem við förum saman á veginum. Ég óska eftir þínum stuðningi á Karolina Fund til útgáfu rafbókarinnar og til að vinna áfram að því að upplýsa og fræða um hvernig við tryggjum öryggi okkar. Söfnuninni lýkur laugardaginn 22. febrúar.
Comments