Þann 19. nóvember sl. sendi ég öllum flokkum í framboði til Alþingis eftirfarandi spurningar:
Hver er afstaða flokksins til Umboðsmanns sjúklinga?
Hvernig sér flokkur þinn að efla megi sjálfsákvörðunarrétt, mannhelgi og frelsi sjúklinga og aðstandenda þegar þeir leita til heilbrigðisþjónustunnar öðruvísi en með óháðum Umboðsmanni sjúklinga?
Komi til annarra plágu á við Covid hvernig geta sjúklingar og almenningur varið sig gegn ofríki stjórnvalda?
Nú hafa fjórir flokkar svarað og eru svörin birt hér beint úr tölvupóstinum.
Svar Lýðræðisflokkusins 25.11. 2024
Komdu sæl Auðbjörg
Þakka þér fyrir þessar spurningar. Hér koma okkar svör:
Hver er afstaða flokksins til Umboðsmanns sjúklinga?
Við teljum að það væri nauðsyn að hafa umboðsmanna sjúklinga, og munum leggja okkur fram við að koma því á fót.
Hvernig sér flokkur þinn að efla megi sjálfsákvörðunarrétt, mannhelgi og frelsi sjúklinga og aðstandenda þegar þeir leita til heilbrigðisþjónustunnar öðruvísi en með óháðum Umboðsmanni sjúklinga?
Eitt af megin stefnumálum flokksins er frelsi einstaklingsins og þar á meðal er sjálfsákvörðunarrétturinn yfir eigin líkama. Fræðsla er sjálfsagt besta leiðin til að efla sjálfsákvörðunarréttinn, mannhelgi og frelsi sjúklinga og aðstandenda
Komi til annarra plágu á við Covid hvernig geta sjúklingar og almenningur varið sig gegn ofríki stjórnvalda?
Þetta er stór spurning en ef við náum fulltrúum á þing þá munum við berjast fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins í þeim málum
Með vinsemd og virðingu og von um þinn stuðning í kosningunum, x-L
f.h. Lýðræðisflokksins
Elinóra Inga Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, í framboði Reykjavík suður 3.sæti
*****
Svarað Miðflokksins 25.11. 2024
Umboðsmaður sjúklinga
Miðflokkurinn telur mikilvægt að hagsmuna sjúklinga sé gætt í hvívetna innan heilbrigðiskerfisins. Það er hins vegar spurning hvort rétt lausn á því sé að setja upp sérstakt embætti umboðsmanns með öllum þeim kostnaði. Umboðsmaður Alþingis á að geta leyst úr þessum málum sem öðrum.
Hvernig sér flokkur þinn að efla megi sjálfsákvörðunarrétt, mannhelgi og frelsi sjúklinga og aðstandenda þegar þeir leita til heilbrigðisþjónustunnar öðruvísi en með óháðum Umboðsmanni sjúklinga?Miðflokkurinn leggur áherslu á að styrkja og bæta heilbrigðiskerfið og hefur af því tilefni viljað draga úr eða lækka ýmsan annan kostnað svo unnt sé að færa meira fjármagn til heilbrigðiskerfisins og auka þannig gæði þjónustunnar.
Komi til annarra plágu á við Covid hvernig geta sjúklingar og almenningur varið sig gegn ofríki stjórnvalda?Miðflokkurinn telur mikilvægt að viðbrögð við Covid-faraldrinum verði metin og skoðuð á yfirvegaðan hátt svo unnt sé að draga af því lærdóm ef og þegar annað slíkt ástand dynur yfir þjóðina.
Svarið sendi Fjóla fh. Miðflokksins
*****
Svar Pírata 20.11.2024
Sæl Auðbjörg.
Takk fyrir að hafa samband.
Við Píratar eru svo sannarlega fylgjandi embætti Umboðsmanns sjúklinga enda lögðum við það fram á Alþingi. Þ.e.a.s. við skrifuðum þingsályktunartillöguna og fengum svo aðra flokka með í svokallaðan meðfluttning. Halldóra Mogensen þingkona okkar í RVK norður hefur lagt málið þrisvar sinnum fram.
Núna á þessu þingi (155) sem hófst í haust: https://www.althingi.is/altext/155/s/0221.html
Í fyrra (154) https://www.althingi.is/altext/154/s/0116.html
Og í fyrsta skipti á 153. þingi https://www.althingi.is/altext/153/s/0211.html
Við teljum að sjúklingar og aðstandendur þurfi að fá hjálp einmitt í gegnum embætti eins og umboðsmann sjúklinga.
Píratar hafa talað fyrir því að farið verði í ítarlega skoðun á þeim aðgerðum stjórnvalda sem skertu réttindi borgaranna í Covid faraldrinum.
Við vorum óþreytandi í að kalla eftir því að ríkisstjórnin gerði grein fyrir því hvernig hefði verið gætt að meðalhófi þeirra aðgerða sem gripið var til í faraldrinum á meðan á honum stóð.
Svör voru því miður alla jafna rýr eða engin. Ef annar heimsfaraldur myndi skella á okkur þá myndum við Píratar tala fyrir því að stíga varlega til jarðar og skoða vel hvaða áhrif sóttvarnaraðgerðir mundi hafa til langs tíma.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum.
Bestu kveðjur,
Margrét Rós
Framkvæmdastjóri þingflokks Pírata
*****
Svar Sósiíalista 20.11.2024
Sæl Auðbjörg,
Frambjóðendur okkar eru svo önnum kafnir við að svara fyrirspurnum eins og þessum að við komumst varla yfir það. Þeir eru búnir að svara Sjúkraliðafélaginu og félagi hjúkrunarfræðinga og mæta í pallborð til að svara fyrir heilbrigðismál svo ég verð að svekkja þig með að við komumst ekki yfir meira en þú ættir að sjá svörin við þessu spurningum á vefsíðum félaga sem hafa sent inn.
kveðja,
Sara Stef. Hildar
Kosningastjórn Sósíalista
Comments